Færsluflokkur: Enski boltinn
Af göngutúr og öðru skemmtilegu
18.8.2007 | 01:15
Nú ég skrapp í smá göngutúr út í náttúruna, og hvað það var yndislegt að finna ilminn af berjalyngi og hrossapuntinum, tína peningagras. Setjast á stein til að hvíla sig. Ég fann hvað ég sakanað þess að búa ekki lengur í sveit, þar sem þetta var bara hluti af tilverunni. Ég var svo sem ekki fljót í ferðum þar sem ég staulaðist á hækjum yfir grjót og þúfur, ég þakkaði bara fyrir að enginn var myndavélin með í för til að mynda gamalmennið sem þarna var á ferð. Ýmir minn var með mér og þótti honum ég vera full lengi að koma mér aftur að bílnum þannig að hann fór og baðaði sig í næstu skurðum, hann fékk að vera úti það sem eftirlifði daginn, hann var leirugur upp fyrir haus og ég bara nennti ekki að fara að baða hann enda færi ég fyrr í bað en hann svo mikið er víst. Hann er einn að þessum hundum sem eru ekki mikið fyrir að skreppa undir sturtuhausinn.
Við hjónin höfum verið frekar róleg þessa dagana en erum smá að lifna við, enda erum við alltaf að og erum að ná að taka til í húsinu þið vitið hvernig þetta er þegar konan skreppur í burtu í nokkra mánuði. Svona þarf aðeins að taka til hendi í skápum og þess háttar smá munum.
Sjúkraþjálfarinn er kominn úr sumarfríi svo ég er komin á fullt aftur í þjálfun, vá það var gott að fá hann Baldur minn aftur, hann er svo stór partur af prógramminu að þegar hann fer í frí er eins og mig vanti ja bendi puttann, og ég verð eins og höfuðlaus her þegar mig vantar hvatninguna frá honum. Hann er búin að fylgja mér eftir í nokkur ár og þekkir mig allvel og veit hvar skórinn kreppir. Svo er þessi elska að fara til Englands að sjá leikinn minn, við erum sem betur fer áhangendur á sama liði svo ekki fara tímarnir í að rífast um boltann.
Jæja nóg af þessu bulli í bili og vonandi eigið þið góða helgi, ég ætla svo sannarlega að njóta hennar.