Að vera vistaður á stofnun
5.5.2007 | 13:26
Ég hef orðið fyrir því að vera vistuð á stofnunum síðustu 6 mánuði og satt best að segja er það óskaplega dýrmæt reynsla. Það er margt sem má laga í samskiptum starfsfólks og yfirvalda, skilningsleysið er algjört, þegar kemur að því að kaupa inn t.d rúm fyrir sjúklinga, að sjá fornaldarrúm sem varla hanga saman vera notuð á árinu 2007 vegna þess að ekki fást fjárveitingar. Hvar er þessi gífurlega hagsæld, alla vegana ekki í heilbrigðisgeiranum.
Þegar ég kom inn á Borgarspítalan með mín veikindi var hugsunin sú að ég kæmist sem fyrst á fætur með sem minnstu tilkostnaði. En reynslan var ekki sú. Ég þurfti tvisvar að gangast undir rándýra lyfjameðferð og ég fann að þetta var töluverður baggi sem ég var að setja á deildina sem ég lá á. Enda lagðist ég inn í enda árs og fjárveitingar orðnar af skornum skammti. Er þetta eðlilegt að sjúklingur fái það á tilfinninguna að betra hefði verið að veikjast á öðrum tíma á árinu. En þetta er náttúrlega vegna þeirra þróunar sem hafa orðið í heilbrigðismálum okkar undir þessari ríkisstjórn.
Fólkið sem starfar á deildinni á Borgó er yndislegt en allt of mikið vinnuálag á því enda ekki nóg af staffi til að gegna öllum vöktum. Ég var þarna í tæpa 2 mánuði og kynntist mörgum þar á meðal manni sem ekki getur verið heima vegna skorts á félagslegum úrræðum í heimabyggð, sem er hrein mannvonska. Er þetta þjóðfélag sem við viljum að við getum ekki veit okkar minnstu bræðrum hjálp við að vera heima.
Ég var send við fyrsta tækifæri í endurhæfingu á Reykjalund, þar tók á móti mér yndislegt starfsfólk enda held ég að í heilbrigðisgeiranum sé einstakt fólk sem vinnur meira af hugsjón en vegna hversu vel sé borgað. En hvað gengur það lengi, ég veit að eigin reynslu að þú lifir ekki af hugsjóninni einni saman.
Ég er heppin að búa á Íslandi og fá þá endurhæfingu sem ég þarf, en við getum alltaf gert betur og bætt hag sjúklinga og starfsmanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.