Skrítin þessi tilvera mín
20.8.2007 | 21:15
Ég er alltaf að reyna að gera hlutina sjálf, ekkert svo sem skrítið við það. En ég var orðin frekar þreytt á að biðja um hjálp við að skipta á rúmunum, svo ég ákvað í morgun að reyna þetta sjálf. Það var svo sem ekkert mál að taka rúmfötin af, en svo kom að því að finna ný rúmföt, kemst ekki upp á stól svo nú varð ég að teygja mig og svei mér ef ég hef ekki stækkað um 1 - 2 cm við þessar teygjur, (rúmfötin eru uppi í efri skáp) reyndi að standa á tánum en það virkaði ekki, nú ég náði rúmfötunum niður í nokkrum teygjum. Svo var næst á dagskrá að koma lakinu á rúmið, byrjaði á einu horninu... svo var staulast að næsta.. ég fann hvernig svitinn var farinn að leka í straumum niður bakið á mér, þakkaði fyrir að vera í fötum sem tóku vel við annars hefði farið að myndast pollur á gólfinu, en loksins náði ég síðasta horninu og vá ég settist niður, en skaust upp aftur þegar ég fann að buxurnar voru blautar, ætlaði sko ekki að þurfa skipta aftur um lak. Svo það var bara ekkert með það að ég varð að klára þetta og komast í sturtu, þetta tíu mínútu verk var orðið að næstum klukktíma verkefni, og það mátti nánast vinda mig. Það lá við að ég færi í ískalda sturtu til að stoppa svitan sem streymdi stanstlaust niður. Ætlaði sko að leggja mig eftir þessa þolraun, en besta vinkona mín kom þá í heimsókn, og eftir að hafa skolað niður nokkrum kaffibollum ákvað hún að taka inn sessurnar úr stólunum úti, það var víst von á rigningu, ég var henni afar þakklát. Þegar hún var að ganga út kom kona frá féló að meta hversu mikla þjónustu ég þyrfti, vinkona mín hafði verið flokkstjóri hjá heimaþjónustunni sagði henni hvað ég þyrfti. Ég hef ekki alveg sætt mig við að þurfa þessa þjónustu, enda hef ég yfirleitt gert allt sjálf, en núna er ég svo háð að fá hjálp við hina undarlegustu hluti eins og að skúra gólf.
Jæja svo kom nú að því að ég ákvað að nú væri tími til kominn að leggja mig, heyri ég þá hlátrasköll sem nálgast húsið hættulega mikið, er þar komin mín kæra vinkona Jóna Stína og Ásdís, ég get alveg sagt það og meina það, þessi ferski andblær sem kom með þeim skvísum gerði það að verkum að ég fann þreytuna hverfa og við sátum og hlógum, og lífið var dásamlegt, leyfði Ásdísi að kíkja inn í kertagerðina. Henni fannst ilmurinn ekki slæmur þar inni .
En svo þegar þær voru farnar þá slappaðist ég niður og lagði mig og er nú á leið til dóttlu minnar að föndra smá ... erum alveg að verða hugfangnar af skrappinu
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heimili, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Já þetta með heimilishjálpina er mál sem mér hefur alltaf fundist mjög erfitt en nauðsynlegt. Ég hef þurft á henni að halda í 16 ár bráðum. Ég gæti eins og þú skipt á rúminu en það tæki álíka á hjá mér og þér og svo fylgja auknir verkir næstu daga. Svo það er úti ef ég vil líka lifa lífinu. Ég fæ hjálp einu sinni í viku til að taka gólfin, klósettið og skipta á hjónarúminu. Stundum á slæmum tímabilum meira.
Ég venst því seint að fá ókunnugt fólk inn til mín til að þrífa. Mannaskiptin eru svo ör. Þó hef ég verið heppin með fólk. En með þetta eins og margt annað þá hef ég tekið ákvörðun um að sætta mig við það til þess að geta notað orku mína á uppbyggilegan hátt fyrir mig en ekki í strit sem ég þoli ekki.
Þetta er val stundum. Að láta sjúkdóminn eða fötlunina ekki stjórna lífi sínu heldur taka völdin í eigin hendur. Þá gengur allt svo miklu betur.
Gangi þér vel með heimilishjálpina
Ása Hildur Guðjónsdóttir, 21.8.2007 kl. 00:18
Já ég hefði þurft á þessu fyrr að halda, en ég hef þrjóskast við og legið bakk eftir að skúra og gera þessi almennu verk sem allir telja sjálfsagt að við framkvæmum. En núna verð ég að fá hjálp sjálfsagt ætlar þessi sjúkdómur að kenna mér að brjóta odd af oflæti mínu og þakka fyrir þá hjálp sem ég fæ og get fengið. Kannski er verið að kenna mér að ég get notið lífsins eins og aðrir bara með smá aðstoð.
Helga Auðunsdóttir, 21.8.2007 kl. 00:25
Takk fyrir færslu Helga. Þú minnir mig á hversu vanþakklátur maður getur verið. að maður gleymir að þakka fyrir þessa hluti sem manni finnst svo sjálfsagðir, en eru ekki sjálfsagðir fyrir alla. Í guðs bænum ekki láta þetta með heimilishjálpina bögga þig. Þú hefur öðrum hnöppum að hneppa og um að gera að njóta þess að geta einbeitt sér að öðrum hlutum. Kertagerðinni, heilsunni og að njóta lífsins eins og þú best getur.
Jóna Á. Gísladóttir, 25.8.2007 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.