Ég og GBS ið mitt
17.1.2008 | 21:25
Ég veit að margir fjölskyldumeðlimir eru að fylgjast með mér hér svo ég ætla að láta fylgja smá um mig og mína heilsu, mér finnst samt ekkert gaman að vera tjá mig mikið um þetta.
Ég er öll að koma til get orðið vakað í ca. heilan dag. Hendurnar eru þræl dofnar og það er ekki auðvelt að pikka hef ekki mikla tilfinningu í puttunum og þeir kólna hratt upp þegar ég er að vesenast í tölvunni. Maður hefði haldið að mér hlýnaði við það en svo er ekki. Fæturnir hafa styrkst heilmikið en ég þarf samt hækjur þegar ég fer út, sem ég geri lítið af þessa daganna enda ófært nema fyrir fullfríska að komast heim að húsinu, enda held ég að allur snjórinn sem hefur fallið hafi komið í innkeyrsluna á Fossheiði 5.
Ég lét nú samt moka út í kertaskúr og þar er ég að rembast við steypa og gat gert smá í dag án þess að örmagnast. Hef ekki náð að gera svona mikið síðan fyrir jól, en þetta var samt lélegur framleiðsludagur . Ætla snemma að sofa og reyna við kertagerðina í fyrramálið, sjá hvort ég geti unnið tvo daga í röð, það hefur ekki gengið til þessa en vonandi tekst það núna. Þá get ég farið að koma öllu í gang og fyllt á lagerinn sem er farin að vera frekar dapur. Enda er svo með mig að mér gengur best þegar ég hef eitthvað annað við tíman að gera en að spá í hvenær ég eigi að fara í æfingar og leggja mig.
Ég er svo sem sátt við að vera ég í dag og standa í fæturna, ég er búin að læra af bitri reynslu að lífið er ekki alltaf sælureitur og vonir geta brostið á svipstundu. Svo einn dagur í einu er góð hugsun og ég hef reynt að tileinka mér hana í gegnum árin og hefur það reynst mér best. Því við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Amma mín sagði alltaf að enginn vissi sinn næturstað og það er svo mikið rétt. Ég hef líka lært það af Steina mínum að þakka fyrir daginn að kveldi. Góður eða slæmur dagur það skiptir ekki máli það sem skiptir máli er að fá að heyra í ástvinum sínum og vita að fólkið sitt er í góðum málum að kveldi.
jæja nú er nóg komið af hugleiðingum og ég óska strákunum okkar velfarnaðar á laugardaginn, við misstum aðeins af lestinni í dag en svona er nú einu sinni lífið og sumir tapa og aðrir vinna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.