Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Já ég er hér enn
22.1.2008 | 21:34
Allt er eins og blómstrið eina hér, var að fá góða sendingu frá henni Ameríkuhreppi, fullt af ilmum, ég er farin að spá í hvernig ég nái upp almennilegu þreki svo ég geti farið að vinna eins og mér er einni lagið. Ég vona að ég geti gert meira á morgun enn ég gerði í dag, en ég hafði samt af að gera fullt af rósarkertum, enda ilmar blessaður kertaskúrinn eins og sumir segja pútnahús, en það er bara æðislegt það segir mér eitt að eitthvað er að gerast. Svo er ég að fá aðra sendingu á morgun og svo á ég von á einni sem er verulega spennandi og það eru þurrkaðar jurtir, rósablöð og fleira góðgæti fyrir Valentínusardaginn.
Heilsan er öll að koma til, enda farin að fá fiðring í magan yfir að komast út í kertaskúr og gera meira en að horfa í kringum mig. Ég þarf samt að passa mig að gera ekki of mikið í einu . Ég er vissum að ég verði þæg og góð og skipulegg mig örruglega alveg út og suður. Vissum að Baldur minn verði ánægður með þessa setningu, enda hefur hann veg og vanda af því að koma mér í form á ný.
jæja nóg af þessu í bili, best að fara út og slökkva og ganga frá skúrnum eftir mig.
Skrítið hvað ég verð þreytt... en kannski ekki
5.1.2008 | 15:23
Já ég er frekar þreytt þessa dagana, en það er sjálfsagt ekkert skrítið. Þó mér finnist þetta ástand ekki beint skemmtilegt þá er kannski tími til kominn að læra að ég verð að slaka á svona ca. 1 sinni á dag og bara leggja mig. Ég þrjóskaðist við það að gera það ekki í desember því mér finnst það tímaeyðsla að leggja mig, en ég gerði þetta mikið áður fyrr og fékk í hausin að ég væri alltaf að leggja mig svo ég hef verið dálítið stíf á að leggja mig ekki. En eftir þetta áfall fer ég að hugsa hvað gerði ég rangt, hvað get ég gert til að bæta líðanina og minnka líkur á að ég fái GBS í 3 skiptið. (ég segi nefnilega allt er þegar þrennt er þá fjórða fullkomið er.. hmm). Ég er að reyna að skipuleggja árið í kertagerðinni svo ég geti látið hana ganga án þess að ganga of nærri sjálfri mér. Sem betur fer er dóttir mín ein af þremur að flytja heim og kemur til með að hjálpa mér í kertunum. Það á eftir að létta helling undir mér.
Svo að öðru máli, ég vil þakka starfsfólkinu á Taugadeildinni á Borgarspítalanum kærlega fyrir mig og það var yndislegt að hitta staffið þar aftur. Þetta var eins og að koma á heimili mitt nr. 2. Þrátt fyrir mikið vinnuálag og þreytu þá var alltaf stutt í brosið og smá spjall.
Jæja ég er komin heim á ný
31.12.2007 | 15:42
Jæja er búin í meðferðinni á Borgó enn þið getið lesið um það á blogginu hjá eiginmanninum. Ég er ótrúlega hress miðað við aðstæður og finnst yndislegt að hafa komist heim fyrir áramót. Enda enginn ástæða til að eyða þeim aftur á Borgó þó útsýnið sé gott þar yfir bæinn. Strákarnir mínir eru að elda í þessum skrifuðu orðum. Ég þurfti sko að elda á aðfangadag, frídaginn minn frá eldamennsku svo ég kom þessu yfir á þá með svolítið dramatískum hætti :) Bara láta ykkur vita að ég er á lífi og lofa að fara vel með mig eins og endranær.
Sumir eru mis - viltir á tímanum
26.11.2007 | 14:43
Já ég gerði hér allt vitlaust í gær enda fyrsti í aðventu. Ég óð um eins og vitleysingur og skipaði fyrir, tæmdi allt jóladót úr geymslunni, sendi skilaboð til stráksins míns út í Danmörku um að segja mér hvar hann hefði set jólaseríurnar í geymslu. Var sem sagt alveg á síðasta snúningi á jólastússinu, og skildi ekkert í því hvað dóttir mín hún Vigdís var róleg yfir aðventukrönsunum sem hún ætlaði að gera fyrir okkur. Steini var setur í að þrífa glugga, fannst mér það ganga heldur hægt hjá honum svo ég bara seti það á "hóld" að vera standa í þessu í niðamyrkri, hann fær bara að gera þetta þegar fer að birta á ný með hækkandi sól. Svo birtist vinkona mín hún Þórdís og horfði á mig með undrun, hvað í fjandanum gengi að mér, hvort ég hefði alveg farið yfir um núna. Ég horfði á hana til baka og benti henni góðfúslega á að það væri nú fyrsti sunnudagur í aðventu og ég væri nú vön að koma þessu jólaskrauti upp á þessum degi, það varð undarleg þögn, og svo var glott, og mér bent á að það væri um næstu helgi þessi fyrsti sunnudagur..... hmmmm það getur bara ekki verið flaug í gegnum huga minn, en jólaþorpið í Hafnafirði það er BARA á aðventunni, aftur kom þögn... nei Helga mín var sagt með brostinni röddu, það byrjar einni helgi fyrr svo sprungu allir úr hlátri, já ég hafði svo sannarlega farið daga vilt.
Annars er af mér allt gott að frétta, ég geri kerti á mínum hraða og gengur þokkalega ef ég bara held mig við efnið og fer ekki fram úr mér, eins og í gær, er að taka það út í dag hmmm, jæja ég verð þá ekki eins þreytt um næstu helgi, allt hefur sínar góðu hliðar. Það er orðið nokkuð til af jólakertum í ýmsum stærðum og gerðum. Það skemmtilega er við að gera jólakertin að það er svo mikið af svona allskonar sælgætisilm sem er að kitla nebbann.
Ég er alltaf í æfingum og gengur þokkalega að ná upp styrk, en annað ætlar að vera eins, verkir og þess háttar smá mál. Þannig að allt gengur sinn vanagang að því leiti og ég er ósköp fegin að þetta skuli þó ekki vera verra en það er.
Svona í lokin fréttabréfið hjá mér kemur út í byrjun des og það er um að gera að vera komin á póstlistann til að fá tilboðin sem verða í desember.
Sko taka tvö.. tekst þetta núna
31.10.2007 | 16:05
ég var búin að skrifa fullt af bulli og svo hvarf það allt saman, svo gaman að blogga þegar allt hverfur finnst ykkur það ekki.
Nú ég er búin að vera hér að bardúsa í kertagerðinni og skipti um lit öðru hvoru, t.d í morgun eignaðist Steini svarta konu, ég er ekki að meina brúna á hörund heldur kolsvarta. Sko ég var sko að lita vax með svörtum lit svona til að tolla nú í svörtu tískunni, svo var ég að kreista flöskuna þegar allt í einu heyrðist voða hvellur og ég sá svartan lit fljúga út um allt og ekki síst á mig sjálfa, skratt.. flaskan sprakk í höndunum á mér. Nú það var lítið annað að gera en að taka upp tuskur og byrja að þrífa fyrst sjálfan mig því allt sem ég kom við varð svart, svo tók við þrif á veggjum og borði. Ég var samt búin sem betur fer að forða öllum kertum í burtu áður en þetta gerðist.
Hérna eru litlu sætu snjókúlurnar mínar ég á eftir að setja smá glimmer á þær og þá verða þær bara geggjaðar.
Svo sjáið þið gráu og hvítu kertin hérna við vinstra megin.
Alltaf að prufa eitthvað nýtt í þessari deildinni þessa daganna. Svo á ég eftir að gera rauð og græn kerti í þessum stíl, mér finnst sjálfri þau vera svolítið tignarleg. Enda ætla ég að gera aðventukransinn úr rauðum kertum. Okey ég veit þið eruð að fá upp í kok af þessu kertatali En svona er það að stundum sé ég ekkert nema kerti allan daginn og þá verður maður svolítið heilaþveginn.
Hvað um það, ég er svona uppistandandi en verkirnir hafa lítið dofnað ég hef bara lært að lifa með þeim, annars er stundum svo að ég þarf á öllum mínum styrk til að standa í þær því það er svo sárt. Ég velti mér lítið orðið upp úr þessu því það er ekki til bóta og læt hverjum degi nægja sína þjáningu í þessum efnum. Það kemur allt nýr dagur með nýrri von um að dagurinn í dag verði betri en í gær. Ég þarf svo sem ekki að kvarta það eru margir þarna úti sem eru verr farnir og verr stemmdir.
Hér er alltaf allt á fullu
25.10.2007 | 19:12
já þessa dagana fer lítið fyrir því að ég liggi yfir tölvunni mér til afþreyingar. Nú er farið að færast fjör í leikanna og kertin mín renna út eins og heitt vax
. Ég er búin að hertaka bóndann í þennan bransa minn. Ég er ekki alveg búin að jafna mig, en ég styrkist óðum við að skokka með mótin á milli herbergja. Svo þarf að brjóta stóra vaxklumpa til að koma þeim í pottanna, svo ég styrkist líka í höndunum kannski eru ekki allir jafn ánægðir með það
. Já lífið er skemmtilegt þrátt fyrir að ég þurfi að bíta á jaxlinn til að geta haldið áfram, en þetta að geta unnið gerir það að verkum að ég set ekki verkina mikið fyrir mig.
Enda held ég að þeir sem hafa lent í einhverju svipuðu og ég njóta þess bara að vera með sínum nánust og njóta lífsins í botn.
Ég er með galleryið opið alla daga vikunar frá 14 til 22 og því tilvalið að renna hingað í sunnudagsbíltúr og kíkja á okkur hjónakornin.
Ég er með meira en bara kerti í galleryinu og þar á meðal eru þurrkaðar jurtir sem eru með kanill ilm sem er bara dýrlegur. Svo er ég með handgerða glerbakka undir kertin sem hægt er að nota undir fleira en kerti, þannig að það er margt að skoða.
Á síðunni minni www.tofraljos.com eru myndbönd fyrir þá sem eru forvitnir um sjúkdóminn sem ég fékk fyrir ári.
Þá er best að fara að fylgjast með fréttunum svo ég viti eitthvað hvað er að gerast.
Vinir og fjölskylda | Breytt 31.10.2007 kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lífið snýst um vax þessa daganna
7.10.2007 | 08:22
Ég hef haft lítið þrek í að blogg hvað þá lesa aðra. Lífið mitt núna snýst um að eiga orku til að geta farið í æfingar og búa til kerti. Við mæðgurnar erum saman að þessu þetta haustið og gengur samvinnan vel að vanda. Við höfum löngum verið eins og ein manneskja þegar kemur að vinnu og það er yndislegt að hafa Viggu mína hjá mér því það veitir mér ákveðna öryggiskennd að vera ekki ein úti í skúr. Við tókum okkur til og bárum út smá bækling í eitt hverfi á Selfossi og það hefur skilað sér ágætlega. Svo við ætlum að halda þessu áfram og taka næsta hverfi fyrir um næstu mánaðarmót. Svona svo fólk fái ekki upp í kok á okkur. Ég skellti ilm í bæklinginn og það sko er alveg skothelt, enda angaði forstofan hjá þeim sem fengu bæklinginn af sjávardraumi og margir hafa mætt með hann og beðið um ÞENNAN ilm.
Ég sjálf er þokkaleg mætti vera betri en hver mætti það ekki. Ekkert lát er á verkjum í fótunum og gerir það mér erfitt fyrir að standa lengi í fæturnar. En það hefur líka sitt að segja á nóttunum þannig að ég sef afskaplega illa, mesta lagi 4 tíma í einu og þá loga þessar elskur. En ég þakka fyrir það hvern dag að geta gengið það var ekkert sjálfgefið miðað við hægan bata hjá mér. Vonandi minnka verkirnir með minnkandi konu, en hún losaði sig við 2 kg á síðasta hálfa mánuðinum svo það eru bara 6 eftir í aðgerðina góðu sem á að bjarga skrokknum á mér, eða réttara sagt hjálpa mér að bjarga því sem bjargað verður
Töfraljós - Ilmkertagerð - Kertagerðin komin vel á skrið
22.9.2007 | 10:47
Hér eru Frankincense kerti, yfirleitt er þessi ilmur í reykelsum sem notuð eru í katólskum kirkjum.
Þetta er sannkallaður jólailmur.
Hér er svo sjávardraumurinn, sá allra vinsælasti ilmur sem við höfum verið með.
En kíkið endilega á síðuna og skoðið vel og vandlega!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fór í tékk á Reykjalundi
13.9.2007 | 08:24
Var með litlu englanna í gær
2.9.2007 | 10:57
Það var það fyrsta sem þau báðu um var að fá pop og djús hjá ömmu. Svo var bíó dagur hjá okkur og við horfðum tvisvar á Tímon og Pumba, svo á Pöddulíf. Svo dönsuðu þau svo fínt fyrir afa og ömmu, þau voru nefnilega að horfa á danskeppnina í sjónvarpinu. Þau voru alveg yndisleg og þau eru svo ánæð að amma skuli vera farin að ganga.
Ég er nú ekki mikil amma í mér en mér finnst voðalega vænt um þessi kríli. Mér er það svo eðlilegt að hafa mikið að börnum í kringum mig að mér finnst alveg eins og ég eigi þau sjálf, enda svo sem fá þau ekki að vaða uppi hjá mér, margir tala um að það sé svo gaman að fá að spilla barnabörnunum ég hef aldrei fundið þá tilfinningu. Kannski er svo stutt á milli þeirra og þess yngsta míns að ég fæ ekki þessa tilfinningu.
En hér er sá tjónaði og sú ofvirka, bestustu börn í heiminum.